Feb 5, 2009

Dagur 3: Hörkupúl og strit

Dagurinn í dag var ekkert grín fyrir Dodda kallinn. Í stuttu máli má segja að dagurinn hafi verið mjög góður framan af en hafi ekki endað jafn hressilega og hann byrjaði. Lestu áfram ....

Það var vaknað snemma, borðað og svo farið niður á æfingasvæði. Menn mæta merkilega snemma fyrir æfingarnar hérna og engum finnst það óeðlilegt hér að vera mættur klukkutíma fyrir æfinguna og sitja bara tilbúinn í æfingagallanum og bíða eftir að þjálfararnir segi manni að byrja. Þannig að Doddi var mættur fyrir kl.10 á æfingasvæðið, fór eitthvað aðeins í lyftingarsalinn með U18 ára liðinu, fékk sér síðan smá hressingu í mötuneytinu, og byrjaði loks fyrri æfinguna um 12:30-leytið með sama liði og í gær, þeas. strákum flestum fæddum 1990-1993.
Doddi stóð sig mjög vel á þessari æfingu. Æfingin byrjaði eins og virðist venjan hér á því að fitnessþjálfarinn var með hópinn í ca. 25 mín í fótavinnuæfingum, jafnvægisæfingu, hreyfiteygjum, styrktaræfingum osfrv. Eftir það tók Tony Carr, yfirmaður Akademíunnar við og var eins og í gær með sendingaræfingar og halda-bolta-innan-liðs æfingar í töluverðan tíma. Tempóið var ennþá hærra en í gær, enda voru einhverjir fleiri strákar en Doddi á reynslu þarna og augljóst að strákarnir sem eru fyrir í West Ham eru ekkert voða spenntir fyrir því að láta einhverja nýja gaura koma í liðið sitt og kannski taka sitt pláss. Doddi hékk vel með þrátt fyrir þetta, en æfingin varði í yfir 2 klukkustundir og það var varla dauð stund þessa tvo tíma.

Eftir sturtuna var klukkan orðin tæplega 16 og seinni æfingin hans Dodda var sett á kl. 18:30 um kvöldið með jafnöldrum hans. Það var því fáránlega lítill tími til þess að hvílast og nærast á milli æfinganna. Í West Ham rútunni á leiðinni á heimavistina tók ég stutt viðtal við Dodda sem var greinilega sáttur eftir góða æfingu.

VIÐTALIÐ
Kristján Ómar: Jæja Doddi, æfing númer tvö hjá West Ham og nú aftur með miklu eldri leikmönnum. Hvernig upplifðir þú þig á þessum æfingum?

Doddi: Það er erfitt að venjast þessu því þetta er svo miklu hraðara en heima, en það er samt gaman að spila í svona miklum hraða. Þessir leikmennu eru með mjög flottar sendingar og móttökur á boltanum.

KÓ: Tókstu eftir einhverjum sérstökum leikmanni sem þér fannst góður.
Doddi. Já, það var einn leikmaður sem ég tók eftir, þetta var varnarmaður sem ég veit ekki hvað heitir en hann var greinilega mikill leiðtogi og talaði stöðugt við mann, var jákvæður og hrósaði manni. Svo var hann mjög góður varnarmaður.

KÓ: Eru þetta öðruvísi æfingar en þú er vanur?
Doddi: Já, æfingarnar eru allt öðruvísi settar upp og svo mikið af æfingum sem ég hef ekki gert áður. Mikið að flóknum æfingum sem tók mann tíma að átta sig á, en hinir voru kannski búnir að gera oft áður. Síðan voru þetta auðvitað miklu eldri strákar en ég er vanur.

KÓ: Ég tók eftir því að þjálfararnir á hliðarlínunni brugðust við öllu sem gerðist inn á vellinum og pældu í hverju smáatriði. Til dæmis í hvert skipti sem þú varst búinn að skoða stöðuna og náðir að leysa stöðuna á vellinum þannig að senda boltann í fyrstu snertingunni fram á við þá fékkstu alltaf mikið hrós.
Doddi: Já, þetta er það sem þjálfararnir tala mikið um, að senda alltaf fram á við þegar það er í boði.

KÓ: Það er komið á hreint núna að það verða engir leikir um helgina vegna vallaraðstæðna hér í Englandi en í staðinn verður settur upp leikur með jafnöldrum þínum hérna í innanhúshöllinni. Hver eru þín viðbrögð við því að þjálfararnir sögðu mér það að þeir séu mjög ánægðir með þig vilji mjög líklega fá þig aftur hingað til West Ham frá 2.-9. maí til að skoða þig betur?
Doddi: Það er bara frábært að heyra það. Maður verður bara kjaftstopp (segir Doddi með brosi út að eyrum. Þetta er náttúrulega það sem maður vill og vonandi verður þetta einhvern tímann atvinnan hjá manni.

KÓ: Hvað fannst þér erfiðast á æfingunni
Aðallega það að ég vissi ekkert hvað ég átti að kalla á strákana. Það tekur smá tíma að fatta hvað þeir eru að segja og læra fótboltatungumálið hérna.

KÓ: Varstu aldrei pínu smeykur á æfingunni? Doddi: Nei, nei, alls ekki. Þeir eru kannski miklu stærri en ég en ég held að ég sé jafnvel sterkari en margir þeirra.
.......................................

Um 16:00 var Doddi kominn heim eftir þennan langa dag á æfingasvæðinu. Það gafst þó ekki mikil tími til að slaka á á heimavistinni, því klukkan 17:30 var hann keyrður aftur upp á æfingasvæðið og nú til að taka þátt í U14 ára æfingu.
Það lið æfir 4 sinnum í viku og þar af einu sinni í viku allan daginn (þeas. morgunæfing, hádegismatur, hvíld og svo aftur æfing), en þann dag fá þeir frí í skólunum sínum til að fara í Akademíuna. Við erum sem sagt ekkert að tala um aumar 60 mínútna æfingar hjá þessum guttum! Á þessum einum degi æfa þeir jafn lengi og flestir jafnaldar þeirra æfa á heilli viku heima á Íslandi. Síðan má bæta því við að þetta U14 ára lið er með þeim bestu á Englandi og tapar víst mjög sjaldan leik í keppni. Þessir guttar voru því eldhressir og sprækir, og drullugóðir í fótbolta líka, á með Doddi kallinn var við það að tæma bensíntankinn sinn. Honum tókst í raun ekki að vera jafn áberandi þarna og á æfingunum með eldri strákum, öfugt við það sem maður bjóst við, en í ljós aðstæðna var það bara eðlilegt og sýndu þjálfararnir þessu skilning enda sáu þeir hann allir standa sig mjög vel á hinum æfingunum.

Það var hörkutempó og mikil gæði og leikskilningur hjá þessum ungu strákum. Í raun var hraðinn meiri en það sem maður hefur sjálfur kynnst hjá meistaraflokksliðum á Íslandi. Flestir af þessum guttum eru búnir að vera frá 8 ára aldri hjá West Ham og er augljóslega búið að skóla þá til í því að spila boltanum á miklum hraða og nota fáar snertingar. Æfingin var í raun mjög svipuð og æfingin hjá A-liðinu og hjá U18 ára liðinu sem ég var búinn að fylgjast með. Hjá öllum þessum liðum er grunntæknin greinilega vel til staðar; allir geta tekið á móti föstum sendinum og sent hann hratt og fast frá sér.
Doddi fær engu að síður annað tækifæri til að sýna sitt rétta andlit með jafnöldrum sínum á laugardaginn þegar spilaður verður leikur í innanhúshöllinni hjá West Ham. Á morgun verður "bara" ein æfing hjá Dodda um morguninn og eftir það verður kappinn bara hvíldur fram að leiknum á laugardaginn. Nánar frá því síðar.

Að lokum hér ein skemmtileg mynd sem ég tók inni á klósettinu í klefanum hjá unglingaliðinu. Hjá West Ham er lagt mikið upp úr því að allir drekki nægilega mikið og réttan vökva, fyrir, á meðan og eftir hverja einustu æfingu. Á klósettinu eiga leikmenn síðan að pissa á sérstaka sýru-basa mælistikur sem segja til um hvort þú sért búinn að drekka nægilega mikið, eða sért að þorna upp. Maður vill sem sagt ekki pissa á þessa mælistiku og fá brúna litinn! :)

No comments:

Post a Comment