Feb 5, 2009

Hressandi kvöldstund með Hómari Erni

Þórður og ég gerðum okkur glaðan dag í gærkvöldi með því að kíkja með Hólmari Erni út á veitingastað sem hann valdi hérna í London. Reyndar ætlaði hann fyrst að velja einhvern kjúklingastað, og ég var því mjög sáttur að sjá að sá staður var pakkfullur og við neyddumst til að fara á pizzastað sem var þar hliðin á. Doddi var hugrakkur og fékk sér alveg eins pizzu og ég, nema með osti.


Á þesum fína pizzastað sátum við í yfir 3 klukkustundir og ræddum um heima og geima ... en aðallega fótbolta þó!

Hólmar Örn er greinilega alger toppnáungi sem ætlar sér augljóslega ennþá lengra í fótboltanum. Allir hjá West Ham tala mjög vel um hann og augljóst að hann er í mjög góðu og fjölskyldulegu umhverfi þrátt fyrir að þetta sé atvinnumannaklúbbur. Það var sérlega fróðlegt fyrir Dodda að fá að heyra frásagnir stráks sem er bara rúmum 4 árum eldri Doddi en er kominn þetta langt í fótboltanum. Eitt sem mér fannst merkilegast í frásögn Hólmars var það að hann segist ekki hafa verið neitt sérstaklega góður í fótbolta fyrr en hann kom upp í 4. flokk. Fram að því segist hann aldrei hafa verið í A-liðunum í yngri flokkunum hjá HK og bara verið miðlungsleikmaður. Þessi frásögn er enn ein sönnunin á því að hlutirnir geta gerst hratt hjá ungum leikmönnum sem eru tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu og æfa vel, líka hjá þeim sem eru kannski "bara" í b-liðinu í 5. eða 4. flokki.

No comments:

Post a Comment