Feb 2, 2009

Fall verður fararheill

Doddi hér tilbúinn undir brottför, algjörlega ómeðvitaður um ósköpin sem áttu eftir að dynja á þennan dag.
Viku fyrir brottför var Bryan Glover búinn að senda okkur flugmiðana og kynna okkur planið fyrir vikuna svo auðvitað var farin að koma smá spenna í okkur. Brottför var sett kl. 09:00 á mánudagsmorninum 2. febrúr og heimför á sunnudeginum tæpri viku seinna. Það var pínu svekkjandi að átta sig á því að West Ham á leik gegn Manchester United á heimavelli á þessum sunnudegi sem við förum heim, og því miður náum við ekki þeim leik :/


Kristján Ómar illa sáttur með "Haukavegabréfið" sitt.

Morguninn rann upp og ég byrjaði á því að taka einn brain-deddara á þetta, og sýna að ég væri greinilega "rétti" maðurinn til að aðstoða ungan mann eins og Dodda á löngu ferðalagi, með því að gleyma vegabréfinu mínu heima! Merkilegt nokk var það ótrúlega lítið mál að fá útgefið Neyðarvegabréf hjá tollinum á Keflavíkurflugvelli sem tók 5 mínútur í málið og rukkaði aumann 2500 kall fyrir. Að auki fékk ég miklu flottara vegabréf heldur en það gamla þar sem ég er Haukagallanum á myndinni í þessu! Doddi kippti sér lítið upp við þetta og hélt sinni vel þekktu stóískri ró. Við vorum mættir hæfilega tímalega fyrir flugið og áætlunin var að lenda í London kl. 12:00 að staðartíma. Svo fór nú ekki alveg. Segja má að allt sem getur farið úrskeiðis í flugi, nema brotlending, hafi farið úrskeiðis (lögmál Murphy's minnti hressilega á sig). Fyrst var fluginu seinkað um klukkutíma vegna veðurs í London, svo seinkað aftur ... og aftur ... og aftur..... Einhverjir voru farnir að fríka út á starfsfólki flugvallarins þegar 6-7 tímar voru liðnir án þess að neitt hefði gerst nema að fólk var búið að missa af tengiflugunum sínum frá London. Fréttir um versta snjóstorm í London í 20 ár fyllti okkur ekki beint af bjartsýni á því að þetta myndi ganga upp, og Bryan kallinn hringdi reglulega og sagði okkur að þó að við kæmust til Heathrow-flugvallarins þá væri alveg óvíst hvort við kæmumst til West Ham svæðisins vegna þess að allar samgöngur í borginni væru algjörlega lamaðar.


Fartölvan kom sér vel í því að éta upp eitthvað að þeim 9 klukkutímum sem við héngum á Keflavíkurflugvelli.


En allt í einu klukkan ca. 17, var okkur sagt að hlaupa að öðrum útgangi á Keflavíkurflugvelli og að brottför væri eftir 30 mínútur. Það tók engu að síður klukkustund að koma öllum í vélina og á leiðinni í gegnum vélina segi ég við Dodda að nú væri týpístk að það væri búið að ofbóka í vélina (því það var frestað seinni flugvélinni til London þennan dag) ... og viti menn? Sitja ekki tveir hressir bretar í sætunum okkar þegar við komum þar að! :) En það tókst að útkljá þann misskilning og brátt vorum við sestir í sætin okkar og flugvélin komin út á brautina. Þá kemur aftur stopp og flugstjórinn tilkynnir að tæknileg vandræði með flugvélina komi í veg fyrir brottför og aftur tók við rúmlega klukkustund bið í vélinni .... verulega taugatrekkjandi.
Doddi fékk það hressandi verkefni að pikka upp talnalás úr einum boltaskápanna á Ásvöllum. Það var hægt að dunda sér við það í klukkutíma. Og lykilorðið var 181.

En að lokum fór dollan á loft og lenti um 20:30 í London. Það var léttir að fá strax skilaboð frá West Ham mönnum um að þær hefðu komist til á flugvöllinn og biðu eftir okkur. Þar sem allar bílasamgöngur lágu nánast niðri þurftum við að skella okkur í lestarkerfið og skipta tvisvar um lest áður en við komum um 23:00 á leiðarenda.

Dennis Dilap hér með Dodda í lest, en þessi kappi hefur það verkefni hjá West Ham að skutlast með unga leikmenn West Ham fram og til baka og hingað og þangað.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig æfingaprógrammið verður hjá Dodda því Bryan Glover sagði okkur það að í svona "brjáluðu veðri" (sem er ekki meira en miðlungs íslenskt snjóslabb í bland við smá skafrenning) falli eitthvað af æfingum niður vegna vallaraðstæðna. Hugsanlega á Doddi að æfa með strákum fæddum 1992 á morgun! En það á eftir að koma í ljós. Doddi gistir á unglingaheimavistinni þar sem einir 16 West Ham leikmenn frá 15-20 ára aldri eiga heima á, þar á meðal Íslendingurinn Hólmar Örn Eyjólfsson sem við hittum vonandi á morgun. Ég gisti hins vegar á fínu hóteli í 2 mínútna fjarlægð frá Dodda. En eftir frekar grillaðan dag langaði mann fátt annað en að henda sér í rúmið og ná almennilegri hvíld. Það er óljóst hvað bíður okkur nákvæmlega næstu daga, en það verður gaman að segja ykkur nánar frá því hér á þessari bloggsíðu.

2 comments:

  1. Gaman að heyra frá ykkur og öllum þessum hremmingum. Eins gott að við vissum ekki af þessu á meðan á öllu þessu stóð. Nóg vorum við stressuð samt. Kveðja Ma og Pa.

    ReplyDelete
  2. Það kemur nú ekki á óvart að sonur minn skyldi gleyma vegabréfinu annað hefði orðið stílbrot. En gaman að fá að fylgjast með ferðalaginu og ævintýri Dodda. Vissi ekkert með hverjum Kristján Ómar væri að fara út með en um leið og ég sá myndina af Dodda í lestinni þá kannaðist ég við svipinn og hugsaði já, Þórður í höfuðið á afa sínum og að mamma hans væri "from the hood". Jæja, Þórður vona að túrinn verði góður og að Kristján Ómar standi sig í stykkinu. kveðja Sigga

    ReplyDelete