Feb 3, 2009

Frosinn fyrsti dagurinn hjá West Ham

Eins og mér sýnist hafa komið fram í fréttum á Íslandi þá er algjört neyðarástand á Englandi vegna mesta "óveðurs" þar á bæ í næstum 20 ár. Flestir Frónbúar myndu nú hlæja að þessu "óveðri" og 7. flokkur kvenna hjá Haukum hefur eflaust æft við verri aðstæður á Ásvöllum í gegnum tíðina. Þrátt fyrir mikil mannaforráð hefur West Ham ekki yfir einu stykki af "Bjarna vallarverði á traktornum" að ráða, til að skafa allan snjó af velli á korteri, svo ekkert varð um æfingar í dag. Eldri liðin hjá West Ham tóku lyftingaræfingu skilst mér og hjá yngri liðunum voru æfingar einfaldlega felldar niður. Dagurinn var því í rólegra lagi hjá Dodda, sem er kannski bara bara besta mál enda var gærdagurinn frekar strembinn. Doddi svaf 10 tíma um nóttina og tókst svo að hrjóta í 2 tíma yfir bíómynd um seinni partinn þegar hann heimsótti mig á hótelherbergið mitt sem er í 2 mínútna göngufæri frá heimilinu þar sem Doddi dvelur.

Doddi fyrir utan heimavistina. Á Englandi byggja menn ekki á breiddinni heldur á lengdinni, en þetta hús er töluvert stærra en það lítur út fyrir að vera enda búa 16 manns að jafnaði þar í einhverjum 10-12 herbergjum sýndist mér. Í forgrunni má sjá ummerki um óveðrið sem reið yfir deginum áður!

Doddi gistir eins og áður sagði á hálfgerri heimavist sem hjónin Val og Bob sjá um fyrir West Ham. Á þessu heimili hafa ýmsir frægir kappar búið eins og Jermaine Defoe, Michael Carrick, Joe Cole, Freddy Sears og fullt af öðrum leikmönnum sem eiga það sameiginlegt að koma úr West Ham, eða The Academy of Football eins og félagið er oft kallað á Englandi. Það er greinilega hugsað mjög vel um þá sem eru þarna inni. Til dæmis var mér bannað að fara upp á 2. og 3. hæðina í húsinu þar sem strákarnir búa vegna einhverra barnaverndalaga sem þau hjónin sem sjá um húsið voru að vitna í! En allt rosalega snyrtilegt og settlegt þarna inni og greinilega rútína á öllum hlutum.

Allir veggir á jarðhæðinni eru dekkaðir af búningum hetjanna sem hafa búið þarna í styttri eða lengri tíma.Kannski að íslensk landsliðstreyja muni einn daginn hanga þarna?


Mönnum á ekkert að leiðast þarna greinilega. Í bakgrunni hanga treyjur og myndir á "veggnum hans Micheal Carrick's" eins og húsmóðirin Val komst að orði.


Doddi í annarri stofunni þar sem sjónvarp, tölvur og fleiri afþreying var í boði.


Á morgun verður fyrsta æfingin hjá Dodda í hádeginu með U18 ára liðinu hjá West Ham! Það verður sem sagt ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, en hina dagana mun hann æfa ýmist með U14, U15 eða U16 ára liðunum og á sunnudaginn verður leikur á móti Wimbledon (eða MK Dons eins og þeir heita víst) en þess má til gamans geta að árið 2004 léku Haukar á móti MK Dons á heimavelli þeirra í æfingaferð Hauka til London. Minnir mig að Haukar hafi unnið þann leik 4-0 (reyndar gegn hálfgerður varaliði þeirra). Svo sagan er með Dodda og vonandi brillerar hann á sunnudaginn.

Á morgun kem ég með myndir og lýsingar af fyrstu æfingunni hjá Dodda.

4 comments:

  1. Gæti ekki verið stoltari af honum Dodda! bara heiður að hafa æft og kept með honum =O

    ReplyDelete
  2. Gaman að heyra hvað um er að vera hjá Dodda og vonandi gengur allt vel. En hvernig er það Kristján ertu búinn að fá þér traditional english breakfast :) ??

    kv Árni

    ReplyDelete
  3. Gangi þér rosalega vel Doddi minn :D
    bið að heilsa ;)
    brilleraðu nú drengur því þú ert nú vanur að gera það :)

    - Lára Rut

    ReplyDelete
  4. Ég hélt mig við continental breakfast ... þó það væri búið að borga fyrir hinn "lúxusinn" ... ehh.
    En ég skal taka smá haggis í poka heim fyrir þig Árni.

    ReplyDelete