Feb 4, 2009

Fyrsta æfingin

Þá var loksins komið að fyrstu æfingunni og það var ekkert verið að tvínóna við hlutina heldur var Dodda hent beint út í djúpu laugina og fékk að æfa með U18 ára liðinu, það er að segja strákum fæddum 1990,1991 og 1992. En fyrir þá sem ekki vita þá er Doddi fæddur 1995. Fystu 25 mínúturnar sá fitness þjálfarinn algerlega um hópinn, sem taldi 14 stráka. Það var farið í alls konar fótavinnuæfingar, hreyfiteygjur og aðrar upphitunaræfingar. Áberandi var að margir af strákunum þarna voru með mjög góða fótavinnu og greinilega búnir að æfa það vel að hreyfa fæturnar hratt, eitthvað sem íslenskir leikmenn þurfa margir hverjir að bæta sig í. Þá skar Doddi sig talsvert úr á þann hátt að hann var að meðaltali 20-25 cm lægri en restin af hópnum, en töluvert margir af þessum strákum voru með efnilega líkamlega burði; axlarbreiðir, hávaxnir og sterklegir sumir hverjir.
Mynd tekin í byrjun æfingarinnar sem var í yfirbyggðu knatthúsi sem er ekki ósvipað Risanum í Hafnarfirði. Myndin var tekin í gegnum gler, en hinar myndirnar eru ekki góðar þar sem ég var hálfpartinn að laumast til þess að taka myndir þar sem mér hafði verið sagt að aðalkallinn þarna, Tony Carr, vilji alls ekki truflun á meðan æfingu stendur.

Þegar fitness þjálfarinn var búinn tóku fótboltaþjálfararnir við, með Tony Carr í aðalhlutverki en sá kappi er búinn að vera yfir unglingastarfi West Ham í 35 ár! Fyrst voru einfaldar sendingaæfingar sem reyndu á að leikmenn gætu sent boltann í fyrstu snertingunni í ýmsar áttir. Þá næst var sóknaræfing þar sem 4 sóknarmenn sóttu á 3 varnarmenn. Varnarmennirnir stóðu sig mjög vel í þessari æfingu og aðeins tvö mörk voru skoruð allan tímann en átti Doddi hörkuskot í slá og var óheppinn að skora ekki. Doddi stóð sig vel og spilaði einfalt með því að nota nánast alltaf 1 og 2 snertingar en var samt óhræddur að fá boltann.
Sóknaræfingin hér í gangi.

Að lokum var spilað í tveimur liðum með 3 snertingar leyfilegar. Í gær var mér sagt að Doddi myndi ekki taka þátt í spili með svona mikið eldri strákum en ég giska á að eftir sókn-gegn-vörn æfinguna hafi þjálfararnir séð að Doddi er það mikill nagli að hann gat alveg mætt þessum strákum í návígum. Áberandi í spilinu var hraðinn á boltanum. Leikmenn sparka fast í boltann þegar þeir senda hann og skjóta varla á markið nema að þruma all hressilega í hann.

Doddi í spilinu í lokin á æfingunni. Doddi var orðin dálítið þreyttur þegar leið á spilið, enda hraðinn mikill og nánast ekkert um pásur. Honum tókst engu að síður að skora úrslitamarkið og hans lið held ég að hafi unnið 4-3.

Um leið og æfingunni var lokið kom fitness þjálfarinn hlaupandi inn á völl með prótein drykki og orkustangir fyrir alla. Leikmenn sátu á vellinum og teygðu og borðuðu um leið. Í heildina var æfingin tæpir 2 tímar og skiljanlegt að það hafi tekið á fyrir Dodda, sem er nýkominn úr jólafríi í fótboltanum heima á meðan þessir strákar eru að spila leik í hverri viku og æfa alla daga. Það var samt ekki svo að Doddi væri neinn eftirbátur þeirra, þó ég kunni að vera dálítið hlutdrægur. Bryan Glover, aðal evrópunjósnari West Ham hrósaði Dodda og sagði "to me, he is obviously a good player".

Í stuttu máli þá stóð Doddi sig frábærlega á þessari æfingu. Margir af hinum strákunum hrósuðu honum eftir æfinguna og Hólmar Örn fór einfaldlega að hlæja þegar hann heyrði að Doddi hefði verið á æfingum með þetta mikið eldri strákum. Á morgun mun Doddi æfa tvisvar, fyrst líklega klukkan 10 um morguninn og svo aftur um kvöldið, í þetta skiptið með jafnöldrum sínum og kannski 1-2 árum eldri.
Í kvöld ætlum við að hitta Hólmar Örn og kíkja með honum á einhvern veitingastað. Ég vona að ég fái að taka Hólmar í stutt viðtal og setja hingað inn á síðuna í kvöld þar sem hann segir okkur aðeins frá lífinu hjá West Ham. Einnig kemur stutt viðtal við Dodda sjálfan bráðlega, þar sem hann segir okkur hvernig hann upplifði fyrstu æfinguna sína hjá West Ham.

No comments:

Post a Comment